Counterblast - Bloggsíða Willy Sutton
May 02, 2004
 
Hvernig skal fjármagna RÚV án þess að brjóta á neinum
Siðferðisleg vandamál skapast þegar ríkið ákveður að eyða peningum landsmanna í einhver óþarfa verkefni. RÚV er gott dæmi um það og menn undrast að núverandi lög geti lokkað fram Gestapo-manninn í góðborgurum sem vinna kósí 9-2 vinnu hjá ríkinu. Hinsvegar á að breyta þessum reglum víst en það kallar bara á ný vandamál.

Nútímalegir jafnaðarmenn hafa ýmislegt um þetta að segja enda meiga þeir ekki uppgvöta neinn ójöfnuð án þess að siðferðiskennd þeirra verði misboðið:

Ekki nefskatt til að fjármagna RÚV

Flest virðist nú benda til þess að afnotagjöldin í núverandi mynd verði lögð niður og þar með hætt að skattleggja fólk fyrir það eitt að eiga lítið viðtæki.

RÚV á fjárlög eða fjármagnað með sérskatti?
En þá vaknar spurningin hvernig eigi að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins þegar afnotagjöldin verða úr sögunni. Á að gera það með því að veita peninga beint úr ríkiskassanum eða á að halda áfram að innheimta sérskatt sem ætlaður er útvarpinu? Og hvernig ætti sá sérskattur þá að vera? Ætti hann að vera föst prósenta af fasteignamati eða ákveðið hlutfall af launum fólks? Væri kannski langbest að styðjast við svipað fyrirkomulag og er nú notað við innheimtu sóknargjalda? Eða ætti máski að fjármagna Ríkisútvarpið með „nefskatti á alla þá sem eru á aldrinum 18-70 ára“ eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagðist vera áhugasöm um í fréttum RÚV á dögunum?

5% skattur á sumarhýruna
Hvaða leið sem verður fyrir valinu vona ég að minnsta kosti að það verði ekki nefskattsleiðin hennar Þorgerðar. Ef Þorgerðarskatturinn yrði ofan á má gera ráð fyrir því að hann yrði á bilinu 10-15 þúsund krónur á ári á sérhvern Íslending á aldrinum 18-70 ára og þyrftu allir að borga sömu krónutölu – algjörlega óháð efnum og aðstæðum. (Það hefði þó einhver áhrif á endanlega fjárhæð nefskattsins ef fyrirtæki og stofnanir þyrftu að greiða hann líka.) Í stað þess að fara fjölmörgum orðum um afhverju ég tel nefskattsleið menntamálaráðherrans óheppilega og ósanngjarna, sem vissulega myndi reynast auðvelt, ætla ég að láta eftirfarandi dæmi nægja:

Gunni, 18 ára framhaldsskólanemi, mun fá 200 þúsund krónur í laun í sumar. Uppáhaldsjónsvarpsþátturinn hans er 70 mínútur á Popptíví með þeim Sveppa, Audda og Pétri Jóhanni. Gunni þarf að borga kringum 5% árslauna sinna í útvarpsnefskatt.

Gréta er 38 ára gamall ráðherra með 700 þúsund krónur á mánuði og reynir alltaf að horfa á Kastljósið. Gréta þarf að borga um það bil 0,1% árslauna sinna í útvarpsnefskatt.

Finnur er 75 ára og fær 250 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. Helgin hjá Finni er ónýt ef hann missir af Laugardagskvöldi með Gísla Marteini. Finnur borgar engan útvarpsnefskatt.

Þarf að segja meira?
Sverrir Teitsson, formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, á Pólitík.is

Ég tek heilshugar undir það sem þessi Sverrir segir þegar hann bendir á annmarka nefskatts. Það er ekkert réttlátt við það að fólk skuli borga stórar prósentur af sínum tekjum fyrir sjónvarp sem það horfir ekki á. Þetta eru rök sem einungis hjartalaust fólk gæti verið ósammála.

Það er hinsvegar hægt að fá einkennilegar tölfræðilegar niðurstöður þegar ríkið er annarsvegar. Til að mynda borgar Gunni framhaldsskólanemi tugi prósenta launa sinna í áfengisskatt á hverju ári, að því gefnu að hann hefur hegðunarmynstur meðaltals menntskælings og heldur áfram að hafa svona afspyrnulélegar tekjur (vinnur hann á vernduðum vinnustað?). Einnig borgar hann um fjórðung launa sinna í áskriftarpakka frá Norðurljósum ef út í það er farið.

Hugsum okkur að nefskatturinn verði lagður á og til þess að lækna tölfræðilegu skekkjuna sem er kynnt hér að ofan, þá verði nefskatturinn tekjutengdur. Þá borgar menntsælingurinn smáaura fyrir 'áskriftina', ráðherran mun meira, kannski ígildi 5 áskriftargjalda og bankastjórinn borgar enn meira, kannski ígildi 15 áskriftargjalda.

Er þá réttlætinu fullnægt? Er það réttlátt að einhver manneskja útí bæ skuli ekki borga áskrift af miðli sem viðkomandi hefur aldrei óskað eftir og notar aldrei, heldur borgar hann margföld áskriftargjöld.

Er þá allt ómögulegt. Ekki gengur flatur nefskattur. Tekjutengdur nefskattur gengur heldur ekki. Núverandi Gestapo ástand er heldur ekki gott. Hvað er til ráða?

Vandamálin sem er lýst hér að ofan leysast ekki nema að hætt sé að neyða fólk til að kaupa sér einhverja vöru.
<< Home

Powered by Blogger