Counterblast - Bloggsíða Willy Sutton
May 09, 2004
 
Joseph Stiglitz
Það er algengt að grafa upp einhverjar opinberar tölur máli sínu til stuðnings. Það er ekkert að því í eðli sínu, enda er erfitt að tjá sig um hagfræði án þess að vitna í hagtölur. Við getum skilið það að stjórnmálamenn skuli koma með misvísandi tölur, enda er hagfræðilegur skilningur þeirra ekki upp á marga fiska og þeir hafa oftar en ekki beinan hag af því að sannfæra áhlustandann (kjósandann) um eitthvað. Hinsvegar er það allt annað og verra mál þegar hagfræðingar gera sig seka um svona ósóma. Tökum Joseph Stiglitz, Nóbel-verðlaunahafa til dæmis, en hér er hann að svara spurningu blaðamanns Salon.com, en umræðuefnið er hvernig sé best að umbreyta sósíalískum hagkerfum í markaðshagkerfi:

What is a reasonable length of time -- particularly when it comes to identifying what's succeeded and failed?

We are never really sure, but what we do know historically is that if Russia's economy is down 30 percent from what it was [in 1989], and let's say they start growing 4 or 5 percent a year, it's going to take them another decade or two just to get back to where they were. In that sense, yes, there will be ups and downs; the race is never over. But the shock therapy has cost the Russian people enormously, not only in terms of GDP. Their life expectancy is down while the rest of the world has life expectancy increasing. These are the kind of consequences that have resulted. Poverty went from 2 percent of the population to over 40 percent in 1998. These are just enormous changes.

Þarna tekur hann opinberar tölur Sovíet veldisins, 2% fátækt, og slengir þeim fram eins og þær séu heilagur sannleikur. Hver trúir þessum tölum frá gömlu Sovíet herrunum sem eitt sinn neituðu tilvist fatlaðra í ríki sínu. Voru virkilega færri fátækir í Sovíet árið 1989 en á Íslandi 2004, eða er Sovíeska tölfræðin brengluð og fátæktarviðmiðin sett fyrir við hungurmörk? Og auðvitað er hægt að spyrja sig hvaða þýðingu fátæktarhugtakið hafi í þjóðfélagi sem ekki viðurkennir eignarrétt.

Hann minnist einnig á 30% samdrátt í landsframleiðslu og þykist hann vita ástæðuna fyrir þessum óförum, but the shock therapy has cost the Russian people enormously, not only in terms of GDP. Við skulum gefa Stiglitz það forskot að segja að tölurnar séu réttar; þessi 30% eru raunvörulegur samdráttur hagvaxtarins og lítum einnig framhjá því að það sem framleitt var í Sovíet var drasl sem var dömpað á landsmenn sem og á önnur ríki sem nutu verndar Sovíet. Er þá einhver önnur skýring á þessum samdrætti en einhver 'shock theraphy' sem einhverjir frjálshyggjupúkar nörruðu Rússland til að taka upp (gefum Stiglitz einnig það forskot að ráðamenn Rússlands hafi fengið tilsögn í sannri frjálshyggju 'shock theraphy' markaðsvæðingu og þeir farið eftir því sem fyrir þá var lagt).

Rússland er ógnar stórt land og hefur nú um 140 miljónir íbúa og er nærri tvöfalt stærra en US, sem hefur 100 miljónum fleiri íbúa, og er stór partur af landinu í órafjarlægð frá vestur Evrópu. Hvað verður um gríðarlega stórt land sem hefur verið stýrt með miðstjórnarháttum í nærri heila öld og var að sligast undan eigin þunga þegar Sovíet veldið liðaðist í sundur. Hvað varð um markaðina fyrir allt Sovíet draslið? Hver endurnýjar framleiðslutækin í Úral fjöllunum og í Magnitogorsk? Hvaða áhrif hefur það á hagkerfi Rússlands að landið liðaðist í sundur? Hver eru áhrif Tjetjéníu stríðsins? Hvaða jólasveinn stjórnaði landinu á sínum tíma? Hvað með spillinguna sem var allsráðandi strax eftir fall Sovíet, þar sem var erfitt að greina á milli mafíósa og valdamanna?

Í mínu auðmjúka áliti, ég tel að margt annað hafi hrjáð Rússland annað en frjálshyggju 'shock therapy', þótt ýmislegt hafi án efa mátt betur fara. Vandamálin sem Sovíetríkin höfðu hlaðið upp voru gríðarleg og löndin sem áður mynduðu þau þurfa áratugi til þess að vinna sig úr þessri efnahagslegu og þjóðfélagslegu hít. Sama hver hefði tekið við völdum í Rússlandi eftir upplausn Sovíet og sama hvaða ráð og stuðning viðkomandi valdhafar hefðu fengið, þá var óstöðugleiki og efnahagsvandræði óumflýjanleg. Einungis spurning um hversu mikil vandræðin myndu verða.
<< Home

Powered by Blogger