Counterblast - Bloggsíða Willy Sutton
May 15, 2004
 
Stórverslanir og neytandinn
Það hefur mikið verið rætt um hinar vondu verslunarkeðjur sem ryðja úr vegi smærri verslunum og sniðganga heildsala ef þeir gefa ekki magnafslátt. Það er án efa mikið til í gagnrýnisröddum, enda engar líkur á að fólk hætti að tapa í viðskiptum einn daginn, og án efa hafa stóru keðjurnar farið á svig við 'góða viðskiptahætti' oftar en ekki, því það starfsmenn og eigendur stórfyrirtækja eru engir englar frekar en aðrir.

Hinsvegar er margt sem er hreinlega ekki rétt sem gagnrýnismenn segja og sumt á sér engar stoðir í raunvöruleikanum. Til dæmis er það ekkert gefið mál að smákaupmaður sem hættir í bransanum tapi neitt á því. Oftar en ekki er verslunin keypt upp af stærri keðju og menn tala að þessi eða hinn hafi nú verið keyptur upp, eins og það sé eitthvað slæmt mál. Oft fer 'litli aðilinn' vel úr þessum viðskiptum því það er algengt að fyrirtæki í útþenslu borgi yfirverð fyrir það sem stjórnendur hafa bitið í sig að sé nauðsin að komast yfir.

Einnig breytist eðli markaðarins með tímanum. Fyrir nokkrum áratugum var það ekki svo slæm hugmynd að opna hverfisverslun. Í raun er það þannig sem allar stóru verslunarkeðjurnar hér á Íslandi hafa byrjað og erlendis hefur það sama gerst einnig. Í dag er það gáfulegra að stofna sérverslun, ef einhver vill hasla sér völl í verslun á Íslandi í dag.

Fyrir þá heildsala sem neyðast til að gefa stórmörkuðum afslátt, þá vorkenni ég þeim ekki neitt. Oft er það nú ágætis viðskipti að hafa mikla veltu með lítilli álagningu í stað þess að eltast við fjölmarga kúnna þó álagningin sé meiri þar. Ef neytandinn vill fá ódýra vöru óháð opnunartíma eða þjónustu eða fjölbreytni, þá er gott að vita að hann getur það á Íslandi þótt sumir reyni að setja stein í götu hans.
<< Home

Powered by Blogger